Erlent

Bandaríkin hafa sóað 10 milljörðum í Írak

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, veitti fyrirtækjum í eigu sinni marga samninga um uppbyggingu í Írak.
Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, veitti fyrirtækjum í eigu sinni marga samninga um uppbyggingu í Írak. MYND/AP
Sjálfstæðir endurskoðendur sem fengnir voru til þess að fylgjast með útgjöldum vegna stríðsins í Írak segja að Bandaríkin hafi sóað meira en 10 milljörðum dollara frá því það hófst. Þeir búast jafnframt við því talan eigi eftir að hækka enn meira.

Samkvæmt gögnum frá endurskoðendunum kom í ljós að bókhald var ekki gott, verkefnum sem hafði verið greitt fyrir var ítrekað seinkað, útgjöld voru allt of há og greitt var fyrir verk sem voru illa unnin eða alls ekki.

David M. Walker, leiðtogi hópsins, sagði að þeir hefðu látið í sér heyra frá upphafi stríðsins en enginn hefði hlustað. „Það tekur enginn ábyrgð. Þeir sem fylgjast með samningum bera ekki ábyrgð. Þeir sem skrifa undir þá bera ekki ábyrgð. Einstaklingarnir sem eiga að vinna verkin bera ekki ábyrgð." sagði hann ennfremur.

Þetta kom fram í yfirheyrslum aðhaldsnefndar bandarísku fulltrúadeildarinnar í Washington í dag. Talsmenn Bandaríska hersins vildu ekkert um málið segja að svo stöddu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×