Tónlist

Hæfileikaríkur hrokagikkur

Gallagher á sviði einn með gítarinn í mars síðastliðnum.				fréttablaðið/gettyimages
Gallagher á sviði einn með gítarinn í mars síðastliðnum. fréttablaðið/gettyimages
Noel Gallagher, aðallagahöfundur bresku sveitarinnar Oasis, varð fertugur síðastliðinn þriðjudag. Fréttablaðið skoðaði litríkan feril kappans.

Noel Gallagher fæddist í Manchester á Englandi árið 1967. Hann átti fremur erfiða æsku og var oft laminn af drykkfelldum föður sínum. Þrettán ára byrjaði hann að læra sjálfur á gítar með því að herma eftir gítarfrösum í uppáhaldslögunum sínum. Á atvinnuleysisbótumGallagher fékk starf í byggingafyrirtæki en varð fyrir því óláni að fótbrotna eftir að hafa fengið þungan stálbita ofan á hægri fót sinn. Í framhaldinu fékk hann rólegri vinnu í vöruhúsi og hafði um leið aukinn tíma til að æfa sig á gítarinn og semja lög. Síðari hluta níunda áratugarins var hann meira og minna á atvinnuleysisbótum og eyddi öllum sínum tíma í tónlistina og fikt með fíkniefni. Hlustaði hann á sveitir á borð við Bítlana, sem áttu áttu eftir að hafa mikil áhrif á lagasmíðar hans, T. Rex, The Rolling Stones, Slade, The Kinks, The Smiths og The Stone Roses. Hafnað af Inspiral CarpetsÁrið 1988 sótti Gallagher um sem söngvari hljómsveitarinnar Inspiral Carpets. Honum var hafnað en fékk í staðinn starf sem rótari. Eftir að hafa farið í nokkur tónleikaferðalög með Inspiral Carpets gekk hann til liðs við hljómsveit yngri bróður síns Liam í byrjun tíunda áratugarins. Oasis átti stóran þátt í Brit-bylgjunni sem reið yfir heiminn um miðjan tíunda áratuginn með lögum á borð við Wonder­wall og Live Forever. Einnig var sveitinni þakkað að hafa fært gamla og góða rokkið aftur í sviðsljósið. Hrokafullur NoelGallagher hefur oft þótt ansi hrokafullur í viðtölum við fjölmiðla og er jafnan duglegur að hrósa eigin lagasmíðum. Hefur hann látið aðrar hljómsveitir á borð við Blur fá það óþvegið og sagt þær hand­ónýtar. Einnig hefur hann lengi átt í deilum við Robbie Williams, sem honum þykir lítið til koma.

Að undanförnu hefur Gallagher verið duglegur við að koma fram einn með kassagítarinn en segist þó ekki hafa áhuga á því að hefja sólóferil. Vill hann frekar einbeita sér að því að spila með „bestu hljómsveit í heimi“, Oasis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.