Innlent

Verður að ríkja sátt um Byggðastofnun

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segir að skapa þurfi ró og starfsfrið um Byggðastofnun Hann segir ríkisstjórnina ekki geta horft framhjá vanda landsbyggðarinnar og því verði hún að geta gripið inn í aðstæður sem þar kunna skapast.

Þetta var meðal þess sem kom fram í ávarpi ráðherra á aðalfundi Byggðastofnunar í dag. Össur sagði mikilvægt að svara grundvallarspurningum um framtíð Byggðastofnunar. Spurningum eins og hvort stofnunin eigi að standa í samkeppni við aðrar viðskiptalánastofnanir í landinu.

Þá verði líka að svara því hvort Byggðastofnun eigi að styrkja atvinnustarfsemi á landsbyggðinni með einhverjum hætti. Því hefur hann sett á laggirnar nefnd sem á að fara yfir þessi mál í sumar.

Össur segir tíma til kominn að ró skapist um starfsemi Byggðastofnunar en hún hefur verið umdeild undanfarin ár, sérstaklega á síðasta kjörtímabili.

Hann segir mikilvægt að samgöngur verði lagaðar og fjarskiptasamskipti bætt.Eins segir Össur stjórnvöld verða að ákveða með hvaða hætti þau koma inn í atburðarrás fámennra staða þar sem mikilvæg atvinnustoð laskast eða brotnar

Þá segir Össur að gera þurfi landsbyggðina að meira aðlaðandi kosti fyrir fólk og það verði aðeins gert með því að hækka launastigið þar og það aðeins hægt með því að hækka menntunarstigið. Það telur Össur að verði gert með því að efla skóla á landsbyggðinni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×