Innlent

Aukinn máttur í hendur eftir aðgerð

Þeir sem hafa lamast fyrir neðan brjóstkassa og misst nær allan mátt í höndunum geta nú öðlast nokkurn handarmátt að nýju. Með aðgerð er hægt að færa fólki aukinn mátt í hendurnar og er reynslan af slíkum aðgerðum góð. Læknir sem lamaðist eftir umferðarslys á Reykjanesbraut fyrir tæpum áratug er á leið í slíka aðgerð.

Þrír Íslendingar með mænuskaða hafa gengist undir aðgerðina sem framkvæmd hefur verið í Gautaborg. Páll Ingvarsson taugalæknir á Grensásdeild segir þennan möguleika fyrir Íslendinga hafa opnast fyrir einu ári. Hátt í 25 manns hér á landi gætu þurft á svona aðgerð að halda sem gengur út á tilfærslu á sinum. Páll segir að fólk finni verulegan mun eftir aðgerð, það fái jafnvel styrk í fingurna sem það hafi ekki haft í tuttugu ár.



Jón Sigurðsson, tryggingalæknir lamaðist fyrir neðan brjóstkassa í bíslysi á Reykjanesbraut fyrir átta árum og hefur lítinn sem engan mátt í höndunum. Hann hyggst nú fara í slíka aðgerð í næsta mánuði. Jón segir mjög bagalegt að geta hvorki haldið á hlutum né skrifað með annarri hendinni. Eftir aðgerðina á Jón að fá aukinn styrk í fingurna og meira grip.



Aðalsteinn Hallsson lamaðist fyrir neðan brjóstkassa í bílslysi fyrir tuttugu árum og missti nær allan mátt í höndunum. Hann fór í aðgerð í fyrra á báðum höndum og fann verulega breytingu. Hann gat hvorki haldið á glasi né tannburstað sig með einni hendi. Aðalsteinn segist hafa fengið máttinn í hendurnar strax daginn eftir aðgerð. Hann segir lífið hafa gjörbreyst. Hlutir sem hann gat ekki gert í tuttugu ár getur hann gert með annarri hendi núna. Hann segist meira að segja vera farinn að olíubera garðhúsgögnin sín sjálfur, eitthvað sem hann óraði ekki fyrir að geta aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×