Innlent

Úrslitin í X-Factor í kvöld

Úrslitakvöld X-Factors verður haldið í Vetrargarði í Smáralind í kvöld og keppa Hara systur og Færeyingurinn Jógvan um X-factorinn. Þau segja engu máli skipta hver beri sigur úr býtum því öll séu þau bestu vinir. Þótt Færeyingar geti ekki tekið þátt í símakosningunni verður keppnin send út beint í færeyska sjónvarpinu í fyrsta skipti í kvöld.



Keppendurnir flytja þrjú lög í kvöld og er eitt þeirra frumsamið. Jógvan flytur lögin Hello með Lionel Ritchie og It´s my life með Bon Jovi. Hara systur flytja lagið Chickitita með Abba og lag Ruslönu sem sigraði í Eurovision árið 2004. Öll flytja þau svo frumsamið lag sem heitir Hvern einasta dag eftir Stefán Hilmarsson og Óskar Pál Sveinsson. Stífar æfingar stóðu yfir þegar Fréttastofa leit þar við í dag en Jógvan segist hafa góða tilfinningu fyrir kvöldinu.



Hann segist ekkert vera svekktur yfir því að Færeyingar geti ekki tekið þátt í símakosningunni. Hann treysti Íslendingum vel til þess. Hara systur segjast lítið hafa sofið alla vikuna vegna æfinga en eru mjög spenntar fyrir kvöldið. Dagskráin verður fjölbreytt í kvöld, valinn verður skemmtilegasti keppandinn í X-factornum og allir keppendur sem komust í úrslit taka lagið. Keppnin hefst klukkan hálf níu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×