Innlent

Stela verkfærum til að selja eða flytja úr landi

Verkfærum fyrir á þriðju milljón króna var stolið nýlega úr tveimur nýbyggingum hjá byggingaverktaka. Starfsmaður hjá fyrirtækinu segir menn fara á milli verktaka til að selja notuð, stolin verkfæri.

Sigurfinnur Sigurjónsson, forstöðumaður framkvæmdasviðs hjá byggingafyrirtækinu Ris ehf., segir talsvert hafa verið um verkfæraþjófnaði að undanförnu. Brotist var inn um ármótin á tveimur stöðum hjá fyrirtækinu og virðist sem þjófarnir hafi komið á sendiferðabíl til að flytja góssið. Hann segir allar líkur á að hluti þýfisins sé flutt til útlanda þar sem því er komið í verð. Eins segir hann menn fara á milli byggingafyrirtækja með notuð stolin verkfæri.

Sigurfinnur segir járnabindivélar vera vinsælar hjá þjófunum um þessar mundir enda kostar stykkið á milli tvö og þrjú hundruð þúsund. Í örðu innbrotinu hjá þeim var þremur slíkum vélum stolið frá undirverktaka sem sér um járnavinnuna. Skömmu síðar var svo hringt í manninn og honum boðnar þrjá járnabindivélar til kaups á því verði sem hann setti upp. Hann átti hins vegar ekki að fá að sjá vélarnar fyrr hann hefði borgað og það féllst hann ekki á.

Finnst honum að verktakarnir þurfi að standa saman og kaupa ekki stolin verkfæri því þannig grafi þeir unda hver örðum.

Ómar Smári Ármannsson, hjá lögreglu höfuðborgarasvæðisins, segir dæmi um að verkfæri sem og annað þýfi hafi fundist í sendingum á leið úr landi. Flestar þær sendingarnar eru á leið til austur Evrópu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×