Erlent

Sjóliðanna bíður líklega ákæra

Bresku sjóliðarnir fimmtán sem Íranar hafa í haldi sínu verða líklega ákærðir og dregnir fyrir dómara. Undirbúningur að lögsókn gegn þeim er sagður standa yfir. Bandaríkjastjórn ljáir ekki máls á að láta íranska fanga í skiptum fyrir Bretana.

Rúm vika er síðan sjóliðarnir voru handteknir við eftirlitsstörf í Shatt al-Arab-ósnum í botni Persaflóa, að sögn stjórnvalda í Teheran vegna þess að þeir voru í íranskri lögsögu. Örlög þeirra hafa undanfarna daga verið bitbein ríkisstjórna Bretlands og Írans og virðist deila þeirra fara stöðugt harðnandi. Í gærkvöld fullyrti Gholam-Reza Ansari, sendiherra Írans í Rússlandi í samtali við þarlenda sjónvarpsstöð, að rannsókn stæði nú yfir á meintum brotum sjóliðanna og komi í ljós nægar vísbendingar um sekt þeirra verða þeir ákærðir og dregnir fyrir dóm. Ansari skoraði auk þess á bresk stjórnvöld að viðurkenna mistök sín og biðjast afsökunar á þeim.

Litlar líkur eru á að honum verði að ósk sinni. Tony Blair forsætisráðherra Bretlands fór mjög hörðum orðum um Írana í gær eftir að þeir birtu sjónvarpsmynd af einum sjóliðanna þar sem hann baðst velvirðingar á að hafa siglt inn í lögsöguna. Utanríkisráðherrar ESB skoruðu svo á Írana að láta sjóliðana lausa tafarlaus og án skilyrða. Komið hefur til tals að Bandaríkjamenn láti úr haldi fimm liðsmenn íranska byltingarvarðarins sem þeir handtóku í írösku borginni Irbil í ársbyrjun gegn því að bresku sjóliðunum verði sleppt. Formælandi bandaríska utanríkisráðuneytisins vísaði þessum hugmyndum hins vegar á bug í gær og sjóliðarnir munu því dúsa áfram í prísund sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×