Innlent

Íhuga á breytingar á lögum um friðhelgi einkalífsins

Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, segir menn þurfa að hugleiða það hvort ekki sé kominn tími til að endurskoða þann hluta almennra hegningarlaga sem lýtur að friðhelgi einkalífsins. Þetta segir hann í kjölfar þess að maður var sýknaður í héraðsdómi fyrir heimildarlausa myndatöku af naktri stúlku.

Ríkissaksóknari höfðaði mál gegn manninum en tapaði því fyrir hérðasdómi Norðurlands vestra á miðvikudag. Maðurinn hafði tekið mynd af nakinni stúlku og sýndi kunningja sínum. Bogi Nilsson, ríkissaksóknari sagði í samtali við fréttastofu í dag að íslensk lög hafi ekki að geyma ákvæði sem leggur refsingu við heimildarlausri myndatöku utan almannafæris. Hann segir að þegar íslensku lögin voru sett árið 1940 hafi fyrirmynd þeirra verið dönsk lög.

Þegar dönsku lögin séu hins vegar borin saman við þau íslensku nú megi sjá að þar í landi hafi verið gerðar margvíslegar breytingar sem ekki hafa ratað inn í hegningarlögin hér á landi. Meðal þeirra breytinga sem gerðar hafi verið í Danmörku sé að þar sé refsivert að mynda mann sem ekki er á almannafæri í heimildarleysi.

Sama máli gegni um dreifingu á mynd af manni sem sýnir hann við kringumstæður sem augljóslega hafi ekki verið ætlaðar til opinberar birtingar. Slík ákvæði sé ekki að finna í íslensku lögunum. Bogi segir eðlilegt að íhuga það hvort ekki sé orðið löngu tímabært að endurskoða lögin með tilliti til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×