Tónlist

Ljósanæturlagið umdeilt í Reykjanesbæ

Jóhann Helgason segir að menn séu óþarflega viðkvæmir fyrir Ljósanæturlaginu þótt hann segist skilja gagnrýnina á vissan hátt.
Jóhann Helgason segir að menn séu óþarflega viðkvæmir fyrir Ljósanæturlaginu þótt hann segist skilja gagnrýnina á vissan hátt.

Lag Ljósanætur í ár er umdeilt í Reykjanesbæ ef marka má vefinn mannlif.is. Lagið, sem heitir Ó, Keflavík og er eftir Jóhann Helgason þykir hefja Keflavík upp til skýjanna og gagnrýnt er að sveitarfélögin sem mynda Reykjanesbæ ásamt Bítlabænum komi hvergi við sögu.

Á vefnum segir ennfremur: „Hljómsveitin sem flytur lagið er svo fullskipuð Keflvíkingum en Rúnar Júlíusson flytur lagið ásamt Jóhanni. Samkvæmt Ólafi Thordersen, bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ, hafa SMS-skeyti gengið í hópsendingum á milli fólks í Njarðvík þar sem Njarðvíkingar eru hvattir til að standa saman á Ljósanótt. Sumir hafa jafnvel hótað því að mæta ekki á Ljósanótt vegna gróflegrar mismununar á bæjarfélögum.“

Jóhann segir að sér finnist þetta óþarfa viðkvæmni. „Ég gef persónulega lítið út á þetta þótt ég skilji gagnrýnina á vissan hátt. Menn verða að taka þessu með víðsýni. Ég þekki ekki Reykjanesbæ enda er ég fæddur og uppalinn í Keflavík. Þetta lag er samið frá hjartanu og útkoman er svona.“ Hann viðurkennir þó að Ljósanæturnefndin hafi velt þessu fyrir sér. „Ég var í sjálfu sér opinn fyrir því að gera annað lag og þetta stóð aðeins í mönnum. En þeir ákváðu að þetta væri í lagi svona. Ég hefði getað samið um einhverja sjoppuna í Keflavík eða Stapann. Ljósanóttin verður nú vonandi haldin í einhverja áratugi í viðbót. Það kæmi mér ekki á óvart þótt Njarðvíkingar á borð við Magga Sigmunds og Jóa G. myndu semja óð til Njarðvíkur á næsta ári.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×