Erlent

Flestum meintum hryðjuverkamönnum sleppt

New York 12 september 2001.
New York 12 september 2001. MYND/AP

Meirihluti þeirra sem hafa verið handteknir samkvæmt hryðjuverkalögum, í Bretlandi, síðan árásin var gerð á bandaríkin 11. september 2001, hefur verið látinn laus án ákæru. Samkvæmt tölum frá innanríkisráðuneytinu, sem birtar voru í dag, voru 1.126 handteknir frá árásinni til loka síðasta árs. Fjörutíu til viðbótar sátu í varðhaldi vegna aðgerða lögreglu gegn hryðjuverkum. Af þessum var 652 sleppt án ákæru.

Í tölum innanríkisráðuneytisins er fólki ekki skipt eftir þjóðerni eða uppruna, en múslimar halda því fram að þeir séu ofsóttir að ósekju. Lögreglan segir að hún hafi komið í veg fyrir meira en fimm meiriháttar hryðjuverk síðan árásin var gerð á samgöngukerfi Lundúna árið 2005 og varar við því að verið sé að undirbúa þrjátíu árásir til viðbótar.

Í tölum ráðuneytisins kemur fram að 221 hefur verið ákærður fyrir hryðjuverka-tengd afbrot og 186 aðrir fyrir aðrar sakir svosem morð, svik og sprengiefnabrot, svo notað sé orðalag ráðuneytisins. Fram að þessu hafa 40 verið sakfelldir undir hryðjuverkalögum, og 180 fyrir önnur afbrot. Í dag eru 98 annaðhvort fyrir rétti, eða bíða réttarhalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×