Enski boltinn

Fabregas hefur enga veikleika

Fabregas hefur sprungið út undir stjórn kraftaverkamannsins Wenger
Fabregas hefur sprungið út undir stjórn kraftaverkamannsins Wenger NordicPhotos/GettyImages

Frank Rijkaard, þjálfari Barcelona, hefur nú ýtt undir orðróm um áhuga félagsins á Spánverjanum Cesc Fabregas hjá Arsenal. Rijkaard segir hinn unga miðjumann ekki hafa neina augljósa veikleika sem leikmaður.

Arsene Wenger fékk Fabregas einmitt frá Barcelona árið 2003 og hefur hann heldur betur sprungið út hjá Arsenal síðan - ekki síst á þessari leiktíð þar sem hann er þegar búinn að skora 11 mörk.

"Það er að mínu mati einn leikmaður sem stendur upp úr í knattspyrnuheiminum í dag hvað varðar hæfileika á miðað við aldur og það er Fabregas. Það er virkilega sérstakt að sjá hvað hann hefur gert með Arsenal svona ungur að árum og hann er orðinn leiðtogi liðsins. Ég er ekki vanur að leita sérstaklega að veikleikum leikmanna, en ég sé satt best að segja enga veikleika í leik Fabregas," sagði Rijkaard.

Arsene Wenger hefur slegið á alla orðróma um að Fabregas muni fara frá Arsenal, en spænska pressan er dugleg að prenta sögur af mögulegr endurkomu hans á heimaslóðirnar.

"Ef Barcelona vill kaupa samningsbundinn leikmann get ég alveg gefið þeim símanúmerið mitt - en ég held að þeir séu með númerið mitt þar sem þeir eru nýbúnir að kaupa Thierry Henry," sagði Wenger og bætti við að það væri "ekki möguleiki" að hann íhugaði að selja Fabregas.

Spænskir fjölmiðlar gerðu mikið úr því í vikunni þegar Fabregas skellti sér til Barcelona að fylgjast með liðinu spila við Celtic, en Wenger sagði hann aðeins hafa verið í fríi og þá mætti hann gera hvað sem hann vildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×