Erlent

Íbúafjöldasprengja yfirvofandi í Kaliforníu

Mynd/L.A. Times

Íbúafjöldasprengja í Kaliforníu er yfirvofandi samkvæmt spá fjármálastofnunar ríkisins sem birtist á heimasíðu L.A. Times í dag. Á næstu 50 árum mun fólksfjöldinn aukast um 75%, sem þýðir að fólksfjöldinn í ríkinu mun nálgast 60 milljóna markið.

Riverside mun verða fjölmennasta borgin á eftir Los Angeles og fólk af rómönskum uppruna verður í meirihluta í Kaliforníu. Fólksfjöldi í Riverside mun aukast um 203% á næstu 50 árum, á meðan fólksfjöldi í Los Angeles hækkar um 36%. Sem dæmi um mikla fjölgun fólks af rómönskum uppruna, segir spáin að 52% íbúa Kaliforníu munu vera af rómönskum uppruna árið 2050, en árið 2000 voru þeir aðeins 32%.

Sumir sérfræðingar velta því fyrir sér hvar allt fólkið og bílarnir þeirra eiga að komast fyrir á meðan aðrir líta á þetta sem efnahagslega lyftistöng fyrir ríkið. Fjármálastofnun Kaliforníu gerir íbúafjöldaspá á þriggja ára fresti, og þessi mikla aukning er m.a. sögð vera vegna þess að nú er tekið mið af því að fólk lifir lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×