Skoðun

Hlustum á börnin!

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir skrifar

Atburðirnir á unglingaheimilinu í Breiðavík hafa hreyft við mörgum og hefur Kastljós Sjónvarpsins þar vakið athygli á viðkvæmu en mikilvægu máli. Málið hefur nú verið rætt á Alþingi og er sjálfsagt að skoða þessi mál bæði í sögulegu samhengi og til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.

Við erum svo heppin að búa í ríku samfélagi þar sem kjör manna eru um margt miklu betri en víða annars staðar. Hjartað í þessu samfélagi er það velferðarkerfi sem hér var byggt upp á 20. öld, ekki síst vegna baráttu verkalýðsfélaga fyrir bættum kjörum og velferðarkerfi fyrir alla. Af þessum sökum eru brotalamir í kerfinu áfall fyrir marga en kenna okkur það að alltaf verður að vera vakandi fyrir slíkum götum.

Það gleymist oft í því 200% lífi sem margur Íslendingurinn kýs að lifa að börnin okkar eru viðkvæmt fólk sem þarf að gæta vel að. Þau eru valdalítil í samfélaginu og þurfa að reiða sig á fullorðna fólkið um velferð sína. Það er sameiginleg skylda okkar allra að hlú að öllum börnum og gæta þess að ekkert barn falli milli skips og bryggju. Við höfum efni á því að reka slíka barnapólitík, ekki síst vegna þess að til lengri tíma skilar hún arði hvernig sem á málið er litið. Eitt barn sem villist af beinu brautinni kostar samfélagið ómælda fjármuni og ekki verða þeir minni ef viðbrögðin eru að níðast á því. Þá er ekki litið á þær tilfinningar sem eru undir hjá stórum hópi fólks í kringum hverja manneskju. Því má alveg eins segja að við höfum ekki efni á því að láta það eiga sig að móta markvissa stefnu í málefnum barna.

Samfélag samtímans er búið til af fullorðnum og að langmestu leyti hannað fyrir fullorðna. Það þarf vilja og kjark til að breyta samfélaginu í þá veru að það verði hlustað meira á börn og borin virðing fyrir þeirra þörfum og skoðunum. En nú er kominn tími til að málefni barna verði þungvæg í stjórnmálaumræðunni. Barnapólitík felst meðal annars í því að auka áhrif barna og leggja áherslu á skólapólitík fyrir börn. Hún felst líka í því að sníða samfélagið þannig að börnin fái meira rými og að foreldrar og börn fái aukin tækifæri til að vera saman. Slík nálgun krefst hugarfarsbreytingar atvinnurekenda, stjórnmálamanna og almennings í landinu en hún mun skila barnvænna samfélagi.

Höfundur er varaformaður Vinstri-grænna.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×