Erlent

Engin lausn fékkst á kjarnorkudeilunni.

Íranar ætla að halda kjarnorkuáætlun sinni til streitu enda segja þeir hana ekki brjóta í bága við alþjóðalög. Leitað var leiða til lausnar kjarnorkudeilunni á ráðstefnu í Þýskalandi í dag en án árangurs.

Íranar fögnuðu því í dag að 28 ár eru liðin frá klerkabyltingunni í landinu og af því tilefni ávarpaði forseti landsins, Mahmoud Ahmadinejad, útifund í Teheran. Nokkur eftirvænting ríkti fyrir ræðu hans enda var búist við að forsetinn myndi lýsa því yfir að 3.000 nýjar skilvindur yrðu settar upp í kjarnorkuverinu í Natanz sem myndu margfalda getu ríkisins til að auðga úran. Þótt ekkert slíkt hafi komið fram í máli máli Ahmadinejads kom glöggt fram í máli hans að stjórnin ætlaði ekki að leggja áform sín um kjarnorkuvinnslu á hilluna. Hann sagði Írana myndu halda slíkri vinnslu áfram, í samræmi við alþjóðalög. Forsetinn gagnrýndi ennfremur ríkisstjórnir Vesturlanda sem réttu fram sáttahönd en krefðust þess um leið að Íranar gengju að öllum þeirra kröfum.

Á meðan þessu stóð var kjarnorkuáætlunin skeggrædd á ráðstefnu 250 áhrifamanna á sviði öryggismála í München í Þýskalandi. Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins fundaði með Ali Larjani, aðalsamningamanni Írana, og þótt andrúmsloftið hafi verið jákvætt á fundinum fékkst engin niðurstaða. Tíu dagar eru þangað til sá frestur sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gaf Írönum til að hætta úranvinnslu rennur út. Að óbreyttu stefnir allt í að refsiaðgerðir ráðsins gegn Írönum verði hertar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×