Hugbúnaðarfyrirtækin Activision og Blizzard, sem framleiða nokkra af þekktustu tölvu- og netleikjum heims, hafa ákveðið að sameinast undir einu þaki og nýju sameinuðu nafni, Activision Blizzard. Breska ríkisútvarpið segir samrunann geta hrist upp leikjatölvubransanum.
Franska afþreyingasamsteypan Vivendi á Blizzard og verður stærsti hluthafinn í sameinuðu félagi.
Markaðsvirði sameinaðs félags er talið nema um 18,8 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði rúmra 1.100 milljarða íslenskra króna.
Á meðal þekktustu leikja Activision eru Tony Hawk og Guitar Hero en afurð Blizzard eru netleikir á borð við World of Warcraft, sem níu milljónir manna um heim allan eru áskrifendur að, og Starcraft, sem er einkar vinsæll í Suður-Kóreu.