Körfubolti

NBA: Joey Crawford dómara vikið úr starfi

Tim Duncan ræðir hér við Joey Crawford dómara í leik í úrslitunum árið 2005
Tim Duncan ræðir hér við Joey Crawford dómara í leik í úrslitunum árið 2005 NordicPhotos/GettyImages

Joey Crawford, einni reyndasti dómarinn í NBA deildinni í körfubolta, var í dag leystur frá störfum um óákveðinn tíma vegna umdeilds atviks sem átti sér stað í leik Dallas og San Antonio á sunnudagskvöldið. David Stern, forseti deildarinnar, gaf út yfirlýsingu vegna málsins nú síðdegis.

Crawford hefur dæmt í NBA í þrjátíu ár og er almennt talinn einn besti dómari deildarinnar. Hann hefur þó haft á sér nokkuð vafasamt orðspor fyrir að vera fljótur að gefa mönnum tæknivillur af minnsta tilefni og þótti hann fara gróflega yfir strikið á sunnudagskvöldið þegar hann gaf Tim Duncan hjá San Antonio Spurs tvær slíkar með mínútu millibili og henti honum úr húsi.

Síðari tæknivilluna fékk Duncan fyrir að sitja hlæjandi á varamannabekknum en Crawford var þá á hinum enda vallarins. Crawford spurði Duncan hvort hann vildi slást við sig og er sagður hafa misst stjórn á skapi sínu.

"Frammistaða Crawford í þessu tiltekna máli var alls ekki í samræmi við þær kröfur sem við gerum á dómara í þessari deild og í ljósi sögu hans undir svipuðum kringumstæðum höfum við ákveðið að grípa í taumana," sagði David Stern í yfirlýsingu í dag. Crawford komst einnig í fréttirnar í úrslitaviðureign Vesturdeildarinnar árið 2002 fyrir svipaða tæknivilluárás á Don Nelson þjálfara Dallas og fleiri.

"Joey er jafnan talinn einn besti dómarinn í deildinni en hann verður að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Við munum ræða betur við hann þegar keppnistímabilinu lýkur," sagði Stern. Ljóst er að Crawford mun ekki koma við sögu það sem eftir lifir af deildarkeppninni - og heldur ekki í úrslitakeppninni sem hefst á fullu um helgina.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×