Erlent

Bandaríkin kæra Kínverja

Jónas Haraldsson skrifar
Susan Schwab, verslunarfulltrúi Bandaríkjanna.
Susan Schwab, verslunarfulltrúi Bandaríkjanna. MYND/AFP

Bandaríkin hafa lagt fram tvær kærur á hendur Kína hjá Alþjóðaverslunarráðinu (World Trade Organization) vegna þess hversu auðvelt er að fjölfalda og selja amerískar bíómyndir, tónlist, bækur og hugbúnað ólöglega. „Það er allt of mikið um sjóræningjastarfsemi og falsanir í Kína." sagði Susan Schwab, verslunarfulltrúi Bandaríkjanna í tilkynningu sem hún sendi frá sér í dag.

„Hugsmíðir og höfundarrétturinn eru ekki verndaðir nógu vel í lögum og það kostar bandarísk fyrirtæki og starfsmenn þeirra milljarða dollara á ári hverju og sumar vörurnar eru jafnvel hættulegar neytendum í Kína, Bandaríkjunum og úti um allan heim." sagði Schwab ennfremur.

Eins og áður sagði eru kærurnar tvær talsins. Sú fyrri er vegna ónógs verndar á hugsmíðum og höfundarrétti, eins og á bíómyndum og bókum. Hin kæran fjallar um innflutningstakmarkanir á Kínamarkaði sem koma í veg fyrir að almenningur í Kína kaupi lögmætar útgáfur af vörum og verði því að kaupa falsaðar útgáfur.

Schwab sagði að ákveðið hefði verið að leggja fram kærurnar tvær þar sem að tvíhliða viðræður um umkvörtunarefnin tvö skiluðu ekki tilætluðum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×