Innlent

Wilson Muuga dreginn á flot um miðjan maí

Stefnt er að því að samningar um björgun Wilsons Muuga af strandstað við Hvalsnes verði undirritaðir í fyrramálið. Áætlun liggur fyrir um að draga flutningaskipið á flot á stórstraumsflóði þann 18. maí næstkomandi.

Skipið strandaði þann 19. desember, fimm dögum fyrir jól, og hefur því setið fast við Hvalsnes í nærri eitthundað daga. Viðræður hafa staðið yfir milli eigenda og stjórnvalda undanfarnar vikur og sér nú loks fyrir endann á þeim. Fulltrúi útgerðar skipsins, Guðmundur Ásgeirsson, mætti ásamt fulltrúum Umhverfisstofnunar til fundar í Umhverfisráðuneytið nú síðdegis til að ganga frá samkomulagi þessara aðila en samkvæmt heimildum Stöðvar tvö er stefnt að því að það verði undirritað í fyrramálið. Undirbúningur á strandstað er kominn á fulla ferð og strax eftir páska verður byrjað að þétta göt sem komu á skrokk skipsins. Stóri dagurinn, sem allt er miðað við, er hins vegar 18. maí en þá verður stórstraumsflóð sem nota á til að draga skipið á flot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×