Erlent

Grafhvelfing Krists sögð fundin

Jesús átti í ástarsambandi við Maríu Magdalenu og þau áttu son. Þetta er staðhæft í nýrri heimildarmynd bandaríska leikstjórans James Cameron. Fræðimenn eru ekki á einu máli um það sem fram kemur í myndinni og kirkjunnar menn eru æfir.

Cameron er þekktur fyrir kvikmyndir á borð við True Lies og óskarsverðlaunamyndina Titanic. Í heimildarmynd hans, sem ber heitið Týnda grafhvelfing Krists eða The Lost Tomb of Christ, er grafhýsið, sem fannst fyrir rúmum aldarfjórðungi, rannsakað og það sagt hafa verið í eigu fjölskyldu Jesú. Þá er sagt að DNA-sýni sanni það sem haldið er fram.

Byggingarverkamenn fundu grafhýsið fyrir rælni í nágrenni Vesturbakkans. Í því fundust tíu líkkistur úr kalksteini merktar Maríu, Matthíasi, Jesú syni Jóseps og Júdasi syni Jesús svo nokkur nafnanna séu nefnd. Ísraelskir fornleifafræðingar segja öll þessi nöfn hafa verið algeng á þeim tíma sem grafhýsið er frá og segja um sölubragð Camerons að ræða.

Cameron sagði á blaðamannafundi í New York í gær að hann hefði aldrei efast um að framsýnn maður að nafni Jesús hefði verið til fyrir tvö þúsund árum. Þetta sé hins vegar í fyrsta sinn sem færi gefist til að sannreyna það auk þess sem myndin lofsyngi tilvist þessa manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×