Erlent

Handtekin eftir dauða fallhlífastökkvara

Fallhlífastökkvarar mynda litla stjörnu.
Fallhlífastökkvarar mynda litla stjörnu. MYND/Fallhlífaklúbbur Reykjavíkur

Belgíska lögreglan hefur handtekið konu eftir að vinkona hennar hrapaði til bana í hópfallhlífarstökki í Opglabbeek í Belgíu. Konan sem lést hét Els Van Doren. Hún var 37 ára, gift og tveggja barna móðir, en átti í ástarsambandi við annan fallhlífastökkvara. Hún vissi ekki að vinkona hennar Els Clottemans átti líka í ástarsambandi við manninn.

Atvikið átti sér stað í nóvember, en þegar lögreglan komst að ástarþríhyrningnum bárust böndin að Clottemans. Hún hefur nú verið ákærð fyrir morðið á Els Van Doren, en neitar sök. Henni er haldið í gæslu þar til fyrirtaka verður seinna í mánuðinum.

Konurnar tvær og elskhuginn voru öll í umræddu fallhlífarstökki og héldust í hendur þegar hópurinn myndaði stjörnu, augnablikum áður en Van Doren lést. Lögreglan segir að myndband úr myndavél í höfuðbúnaði hennar sýni þegar hún hrapaði til jarðar. Eftir rannsókn á myndbandinu, og fallhlífinni, telur lögregla að átt hafi verið við búnaðinn. Afar fátítt er að bæði aðal- og varafallhlíf opnist ekki.

Els Clottemans hafði komist að sambandi vinkonu sinnar við sameiginlegan elskhuga, en hann hafði haldið báðum konunum leyndum fyrir hinni. Þremenningarnir höfðu verið félagar í fallhlífastökki til margra ára.

Els Clottemans mun hafa reynt að fyrirfara sér rétt fyrir seinni yfirheyrslu hjá lögreglu, en hún er sögð þjást af geðtruflunum. Við rannsókn málsins komst lögreglan að því að Clottemans hafði verið handtekin fyrir að reyna að keyra yfir amerískan kærasta. Hann slapp án meiðsla og hún var látin laus án ákæru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×