Innlent

Vilja útrýma nektardansstöðum í Reykjavík

Svo gæti farið að nektarstöðum verði útrýmt úr borginni en nýr meirihluti hyggst taka fastar á málum þeirra en gert hefur verið. Yfirlýst stefna mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar er að sporna gegn rekstri nektardansstaða.

Í Reykjavík eru starfræktir þrír nektardansstaðir, Óðal, Bóhem og Vegas. Í lögum sem nýlega tóku gildi er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna. Þó getur leyfisveitandi, í þessu tilfelli Reykjavíkurborg heimilað slíkan rekstur að fengnum jákvæðum umsögnum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa málefni nektardansstaða verið rædd hjá nýjum meirihluta og fyrir liggur að taka fastar á þeim. Ekki er þó ljóst til hvaða aðgerða mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar hyggst grípa til en ætla má að meirihlutinn beiti sér í gegnum Borgarráð. Formaður Mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar vildi ekki tjá sig um málið þegar leitað var eftir því.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×