Breski hnefaleikarinn Ricky Hatton hefur lofað því að gefa áhorfendum eitthvað gott fyrir aurinn þegar hann berst í fyrsta skipti í Las Vegas í Bandaríkjunum annað kvöld. Búist er við því að 3000 Bretar muni mæta og sjá hetjuna sína berjast við Kólumbíumanninn Juan Orango um IBF beltið.
"Ég mun slá botninn í jóla- og áramótagleðina fyrir fólk og áhorfendur mega eiga von á flugeldasýningu frá mér. Ég vil að fólk gangi út af þessum bardaga með það á tilfinningunni að það hafi orðið vitni af sérstökum viðburði," sagði Hatton drjúgur með sig, en hann hefur hingað til ekki valdið vonbrigðum í hringnum með frábærum sóknarleik sínum.