Erlent

Flugskeyti skotið að bandarísku sendiráði

Talið er að öfgasinnaðir vinstrimenn hafi verið að verki þegar flugskeyti var skotið að sendiráði Bandaríkjanna í Aþenu í Grikklandi í morgun. Enginn særðist í árásinni.

Hús nötruðu þegar flugskeytið rauf morgunkyrrðina og sprakk svo inni á salerni á þriðju hæð sendiráðsins, sem er í miðborg Aþenu. Nokkrar skemmdir urðu á húsinu en til allrar hamingju varð ekkert manntjón í sprengingunni. Nærliggjandi götum var lokað í kjölfarið og tugir lögreglubíla umkringja sendiráðið, sem er rammlega víggirt. Sendiherrann sagðist í samtölum við fjölmiðla líta málið mjög alvarlegum augum og utanríkisráðherra Grikklands, sem kom og skoðaði verksummerki, fordæmdi sömuleiðis árásina. Grísk yfirvöld segjast hafa fengið nafnlaus símtöl í morgun þar sem samtökunum Epanastatikos Aghonas eða Byltingarbaráttunni var kennt um tilræðið. Þau eru skipuð róttækum vinstri mönnum og hafa á undanförnum árum staðið fyrir nokkrum hryðjuverkum í Grikklandi. Meðal annars sýndu þau menningarmálaráðherra landsins banatilræði á síðasta ári.

Áratugur er síðan flugskeytum var síðasta skotið að bandaríska sendiráðinu í Aþenu. Þá voru aftur á móti á ferðinni marxísku samtökin 17. nóvember sem stofnuð voru á miðjum áttunda áratugnum til að berjast gegn herforingjastjórninni sem þá stýrði landinu. Þau voru leyst upp árið 2002 en meðan þau voru í fullu fjöri stóðu þau fyrir fjölmörgum hermdarverkum sem kostuðu tugi mannslífa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×