Erlent

Stórfellt smygl á fólki til Norðurlanda

Óli Tynes skrifar
Frá Stokkhólmi.
Frá Stokkhólmi.

Þýska lögreglan handtók í dag níu Íraka sem eru grunaðir um að hafa smyglað fólki til Danmerkur og Svíþjóðar. Talið er að mennirnir hafi smyglað um eitthundrað Írökum til þessara landa. Smyglararnir höfðu höfuðstöðvar í Þýskalandi, þar sem þeir sjálfir höfðu sótt um hæli sem flóttamenn.

Talsmaður lögreglunnar segir að þeir hafi rukkað fólkið um 10 þúsund evrur á mann, eða um 900 þúsund íslenskar krónur.

Ekki kemur fram í frétt Reuters fréttastofunnar hvort vitað sé um hvar þeir eru niðurkomnir sem smyglhringurinn kom til Danmerkur og Svíþjóðar.

Þeir eru þar náttúrlega ólöglega og geta búist við að vera sendir heim aftur ef til þeirra næst. Smyglararnir níu eru flestir af kúrdiskum uppruna, en ekki er vitað hvort farþegar þeirra voru það einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×