Innlent

Óttaðist um líf sitt

Rúmlega tvítugur maður sem bundinn er við hjólastól segist hafa óttast um líf sitt þegar ráðist var á hann um kvöldmatarleytið síðastliðið sunnudagskvöld í miðbæ Reykjavíkur. Hann segir að stórauka þurfi öryggisgæslu í miðbænum alla daga því enginn sé óhultur.



Kristján Vignir Hjálmarsson er tuttugu og tveggja ára og er spasdískur og hreyfihamlaður. Hann er bundinn við rafknúinn hjólastól og þarf aðstoð við allar daglegar athafnir. Kristján var á leið heim, af fundi í Hinu húsinu á sunnudagskvöld klukkan hálf sjö þegar maður kom upp að honum við Héraðsdóm Reykjavíkur. Kristján segir hann hafa verið ölvaðan og illa til reika. Maðurinn krafðist þess að Kristján keypti sígarettur handa sér en þegar hann neitaði því þá sló maðurinn Kristján utan undir. Hann reif farsímann af Kristjáni og hljóp í burtu.



Kristján segist hafa orðið mjög skelkaður eftir árásina og fékk að hringja á lögregluna hjá vegfaranda sem átti leið hjá. Hann segist aldrei hafa upplifað það áður að óttast um líf sitt.



Kristján fer allra sinna ferða á hjólastólnum og neitar því ekki að hann óttist að fara út einn síns liðs eftir atvikið. Hann sé algjörlega bjargarlaus ef síminn er tekinn af honum eða stólnum velt. Kristján segir fokið í flest skjól þegar ekki er einu sinni hægt að vera öruggur á ferli á sunnudegi um kvöldmatarleytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×