Innlent

Fyrirtæki undir smásjá Neytendasamtakanna til 1. mars

Dæmi eru um matvörur sem hafa hækkað um þrjátíu og fimm prósent í janúar samkvæmt nýrri verðlagsvakt sem Neytendasamtökin settu upp á heimasíðu sína í gær. Fyrirtæki verða undir smásjá samtakanna segir formaðurinn sem hefur fulla trú á að lækkun virðisaukaskatts fyrsta mars skili sér til fólksins í landinu.

Meðal fyrirtækja á listanum hjá Neytendsamtökunum er Nói Síríus sem hækkaði þann fimmtánda janúar verð á Kelloggs morgunkorni og Cadburys sælgæti um 6-15 prósent. Skýringin er sögð gengisbreytingar og erlendar verðhækkanir. Sláturfélag Suðurlands hækkar í janúar verð á kryddi og Barilla pasta um 3-9,7% af sömu ástæðu. Veislubakstur hækkaði flatbrauð, soðbrauð og kökur um 3-35% í janúar. Tuttugu og níu fyrirtæki eru á listanum sem verður haldið úti næstu vikur. Það er mikilvægt fyrir neytendur að fá upplýsingar um verðhækkanir á matvöru, segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, nú í aðdraganda 1. mars. Einnig skipti máli að veita fyrirtækjum aðhald.

Dragi fyrirtæki hækkanir til baka verða þau umsvifalaust tekin út af listanum en hann verður uppfærður reglulega. Ef neytendur fá ekki að fylgjast með gætu þau grunað fyrirtæki um að hækka til að geta lækkað fyrsta mars, segir Jóhannes, því er mikilvægt að allt sé uppi á borðinu. Hann hefur hins vegar fulla trú á að lækkun virðisaukaskatts þann 1. mars eigi eftir að skila sér til neytenda enda verði þau undir smásjá samtakanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×