Erlent

Beirút lömuð vegna óeirða

Beirút, höfuðborg Líbanons, er nærri lömuð vegna óeirða sem þar hafa geisað síðan í nótt. Mörg þúsund mótmælendur hafa lagt niður vinnu í Beirút og víðar og krefjast þess að ríkisstjórnin segi af sér svo hægt verði að kjósa nýtt þing. Stjórnvöld segja þetta tilraun Hizbollah til valdaráns.

Það var í gær sem Hassan Nasrallah, leiðtogi Hisbollah-samtakanna, hvatti Líbana til að leggja niður vinnu, koma saman á götum úti og krefjast afsagnar Fuads Saniora forsætisráðherra og ríkisstjórnar hans. Nasrallah sagði ríkisstjórnina halla undir vesturveldin og fengi hún að ráða myndi efnahagur landsins hrynja. Hizbollah-liðar njóta stuðnings Ísraela og Sýrlendinga í aðgerðum sínum en auk þess eru drúsar og kristnir menn í hópi stjórnarandstæðinga sem vilja sjá breytingar á stjórn landsins.

Það var svo í morgun sem til átaka kom í höfuðborginni Beirút. Mörg þúsund Líbanar lögðu niður vinnu. Kveikt var í hjólbörðum og öðru lauslegu og hlutar borgarinnar lokaðir af, þar á meðal leiðin að flugvellinum. Dökkur reykur lagðist yfir höfuðborgina. Tugir hafa særst og minnst einn týnt lífi.

Stjórnvöld í Líbanon segja aðgerðir dagsins ekkert annað en tilraun Hizbollah-liða og utanaðkomandi aðila til að ræna völdum. Í sjónvarpsávarpi síðdegis sagði Saniora að hann ætlaði ekki að víkja. Hann sagði sig og bandamenn sína standa sameinaða gegn árásum andstæðinga.

Óeirðirnar blossa upp á slæmum tíma fyrir ráðamenn í Líbanon. Í dag hefst í París ráðstefna þar sem fulltrúar erlendra ríkja og alþjóðasamtaka koma saman og ræða það að framlengja lán til handa Líbönum og tryggja þeim frekari aðstoð eftir blóðug átök við Ísraela í fyrrasumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×