Innlent

Einmana börn frekar fórnarlömb kynferðisbrota

MYND/Getty Images

Á síðustu fimmtán mánuðunum hefur tuttugu og eitt kynferðisbrotamál verið kært þar sem gerandi komst í kynni við fórnarlambið í gegnum netið. Sérfræðingur Barnahúss telur einmana börn frekar verða fórnarlömb í slíkum málum þar sem þau hafi oft lága sjálfsmynd og eigi erfitt með að segja nei. Einmana börn voru umræðuefnið á morgunverðarfundi á Grand hóteli í morgun.

Á fundinum var rætt um líðan einmana barna og hvernig sé hægt að hjálpa þeim. Ólöf Ásta Farestveit, sérfræðingur hjá Barnahúsi, sagði börnin hafa meiri tíma en önnur börn sökum vinaskorts og leita því oft inn í heim tölvunnar. Hún komi í stað vina en notkun netsins geti hins vegar oft verið hættuleg fyrir börnin.

Ólöf Ásta telur að einmanna börn verði frekar fórnarlömb í kynferðisbrotamálum sem tengjast netinu þar sem þau þrái vini. Hún segir erfitt að gera sér grein fyrir fjölda slíkra mála en það sé hennar trú að þau séu mun fleiri en þau sem kærð hafa verið.

Arnar Þorsteinsson, náms- og starfsráðgjafi í Ölduselsskóla segir erfitt að segja til um hversu hátt hlutfall barna séu einmanna í skólanum. Hins vegar fái hann yfirleitt þau svör hjá kennurum að þeir telji að eitt til tvö börn séu einmanna í hverjum bekk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×