Heimilistölva Sir Clive Sinclair, ZX Spectrum, er 25 ára. Fyrsta eintakið var selt í London þann 23. apríl árið 1982.
Sinclair betrumbætti fyrri útgáfu sína af hinni svarthvítu ZX-81 og afraksturinn sló í gegn. ZX Spectrum var átta lita tryllitæki með 256 x 192 punkta upplausn og 3,5 megariða örgjörva. Ekki má gleyma gúmmí lyklaborðinu sem hitti beint í mark hjá notendum.
Sir Clive náði aldrei sömu hæðum í samgöngum, útvarpsúrum og póker eftir þetta meistaraverk sem kalla má upphaf tölvukynslóðarinnar.
Þeir sem vilja minnast fyrstu einkatölvunnar sinnar geta farið á worldofspectrum og vottað virðingu sína.