Erlent

Skemmdirnar á Endeavour minniháttar

Valur Hrafn Einarsson skrifar
MYND/NASA

Geimferðastofnun Bandaríkjanna telur skemmdirnar sem urðu á hitaskildi geimferjunnar Endeavour sé minniháttar vandamál sem líklega þarfnist ekki viðgerðar.

Áhöfn ferjunnar mun þó rannsaka skemmdirnar betur í dag. Umsjónarmaður geimferðarinnar John Shannon sagði, Það eru góðar líkur á því að þetta verði ekki eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af".

Dældin í hitaskildinum uppgötvaðist á ljósmyndum sem teknar voru á föstudaginn þegar geimferjan kom að Alþjóða geimstöðinni. Nasa óttaðist að geimfararnir þyrftu að gera við dældina á staðnum svo óhætt yrði að snúa aftur til jarðar.

Myndband af geimskotinu sýnir að stykki af einangrunarfroðu losnaði af eldsneytistanki Endeavour og rakst í ferjuna.

Skemmdirnar virðast aðeins vera á yfirborðinu og ekki á stað sem skapi hættu við endurkomuna til jarðar. Lokaákvörðun verður þó ekki tekin fyrr en eftir skoðunina í dag.

Í fyrstu hélt Nasa að ferjan hefði orðið fyrir ísklumpi, sem líklega hefði valdið meiri skemmdum en einangrunarfroðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×