Innlent

Glitnir hvorki játar né neitar að bankinn hafi áhuga á REI-hlut

Oddviti Samfylkingarinnar í borginni furðar sig á því að meirihlutinn hafi stofnað til brunaútsölu á eignarhlut Orkuveitunnar í REI í bakherbergjum Sjálfstæðisflokksins. Talsmaður Glitnis hvorki játar því né neitar að bankinn hafi þegar lýst áhuga á að kaupa hlut Orkuveitunnar í REI.

Á vefsíðunni Eyjunni er því haldið fram í dag að Glitnir hafi nú þegar lýst áhuga á að kaupa hlut Orkuveitu Reykjavíkur í REI á genginu 2,9. Hluthafar í REI eiga forkaupsrétt á hlut Orkuveitunnar en Glitnir er meðal hluthafa ásamt FL Group, Atorku, VGK Invest og Bjarna Ármannssyni. Þegar fréttastofa hafði samband við upplýsingafulltrúa Glitnis í morgun vildi hann hvorki játa þessu né neita og sagði bankann aldrei tjá sig um orðróm á markaði.

Ákvörðun Sjálfstæðismanna í gær að selja hlut Orkuveitunnar mælist misjafnlega fyrir. Dagur B. Eggertsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í Orkuveitu Reykjavíkur, segir að sér lítist illa á hugmyndina. Hann setji spurningarmerki við að menn séu að efna til brunaútsölu í bakherbergjum Sjálfstæðisflokksins.

Dagur bendir á að Sjálfstæðismenn taki svona ákvörðun ekki einir. „Ég fæ ekki séða að almannahagsmunir eða nein slík hugsun hafi komið yfirleitt við sögu þegar þeir voru að plástra sín innanflokkssár," segir Dagur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur meðal annars verið sakaður um að ætla með þessari ákvörðun að hafa af borgarbúum hugsanlegan hagnað af hlut Orkuveitunnar í REI.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×