Fótbolti

Hjálpaðu okkur, Yossi

Yossi Benayoun getur aukið vonir Englendinga um að komast á EM
Yossi Benayoun getur aukið vonir Englendinga um að komast á EM NordicPhotos/GettyImages

Þeir Peter Crouch og Steven Gerrard hafa beðið félaga sinn Yossi Benayoun hjá Liverpool um að gera sitt besta til að hjálpa Ísraelum að leggja Rússa að velli á heimavelli þann 17. nóvember.

Vonir enska landsliðsins um sæti á EM næsta sumar hanga á því að Ísraelar hirði stig af Rússunum í E-riðli. Rússar eiga eftir að spila við Andorra og Ísrael í riðlakeppninni og er leikurinn við Andorra aðens forgangsatriði.

"Við Steve erum búnir að hamast á honum og reyna að koma honum í réttan gír fyrir leikinn við Rússa. Vonandi stendur hann sig vel í leiknum," sagði Crouch á heimasíðu Liverpool. "Það væri frábært fyrir hann að verða hetja Englendinga líkt og hann er nú orðinn hetja stuðningsmanna Liverpool."

Króatar eru í efsta sæti E-riðils og nægir stig gegn Makedóníu í næsta leik til að tryggja sér farseðilinn á EM. Lokaleikur liðsins er svo við Englendinga.

Benayoun átti skínandi leik þegar Liverpool valtaði yfir Besiktas 8-0 í Meistaradeildinni í fyrrakvöld og skoraði þá þrennu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×