Bakvörðurinn Jamaal Tinsley hjá Indiana Pacers í NBA deildinni hefur ákveðið að ráða sér lífvörð eftir að hafa orðið fyrir skotárás fyrir nokkrum dögum.
Tinsley slapp ómeiddur þegar skotið var á bifreið hans og fylgdarliðs hans í miðborg Indianapolis, en þetta var í þriðja sinn sem leikmaðurinn kemur sér í vandræði á rúmu ári.
Tinsley fetar nú í fótspor þeirra Reggie Miller, fyrrum leikmanns Indiana, og Jermaine O´Neal félaga síns í liðinu, með því að ráða sér lífvörð.
Hann kallar ekki allt ömmu sína því hann er fæddur í frekar skuggalegu hverfi í Brooklyn í New York, en leikmaðurinn segist furða sig á því hvað hann sé óheppinn að lenda í svona uppákomum í Indianapolis.