Innlent

Reyndi að kyrkja kynsystur sína í Kópavogi

Breki Logason skrifar
Players í Kópavogi
Players í Kópavogi

42 ára gömul kona var dæmd í Héraðsdómi Reykjaness í morgun til þess að greiða 150.000 krónur í sekt til ríkissjóðs fyrir að hafa tekið aðra konu kverktaki á skemmtistaðnum Players í Kópavogi.

Stúlkan sem varð fyrir árásinni var stödd á dansgófli Players þegar hljómsveitin beindi til hennar óskalagi. Stúlkan var að halda upp á afmælið sitt og gekk upp að sviðinu til þess að athuga hver væri að senda henni óskalag þegar konan kom að henni og byrjað að ýta og reka olnbogana í hana. Stúlkan gekk þá í burtu en konan hélt áfram að áreita hana, hún hafi þá spurt hvað henni gengi til þegar hún hafi skyndilega „hert að barkakýli hennar".

Í lögregluskýrslu segir stúlkan að hún hafi verið að líða útaf þegar hún sá svartklædda treyjuermi dyravarðar slíta hendi konunnar frá hálsinum. EFtir það datt hún út og man næst eftir sér inni í eldhúsi, þar sem hún var að reyna að ná andanum.

Konan neitaði fyrir rétti að hafa ráðist á stúlkuna en viðurkenndi að hafa verið á Players þetta kvöld. Dyravörðurinn er þess hinsvegar fullviss að það hafi verið þessi kona sem hafi reynt að kyrkja stúlkuna. Í niðurstöðu dómsins segir:

„Árás ákærðu var ófyrirleitin og algjörlega án tilefnis eftir því sem best verður séð. Þegar á hinn bóginn er haft í huga að hún hafði óverulegar afleiðingar í för með sér og jafnframt litið til þess að ákærða hefur ekki áður sætt refsingu þykir mega láta við það sitja að gera henni sektarrefsingu, sem að atvikum virtum þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa skal ákærða í hennar stað sæta fangelsi í 12 daga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×