Innlent

Hæstánægður með áframhaldandi fiskvinnslu á Flateyri

Bæjarstjórinn á Ísafirði segist hæstánægður með nýja fyrirtækið, Oddatá sem keypt hefur allar fasteignir Kambs á Flateyri og hyggst hefja þar fiskvinnslu. Hann segir mikilvægt að menn leiti nýrra leiða til að viðhalda atvinnulífinu í litlum byggðarlögum og Ísafjarðarbær muni veita þeim allan þann stuðning sem til þurfi.



Eignarhaldsfélagið Oddatá ehf sem er í eigu Atlantsíss ehf á vegum Kristjáns Erlingssonar og fjölskyldu, tilkynnti í gær að það hefði keypt fasteignir fiskvinnlunnar Kambs á Flateyri og hyggst halda þar fiskvinnslu áfram. 120 starfsmönnum var sagt upp fyrir skömmu þegar Kambur lagði niður vinnsluna. Um 70 manns störfuðu við fiskverkun á Flateyri og búist er við að einhver hluti þeirra starfi áfram hjá Oddatá.

Fyrirtækið á engan kvóta en forstjóri Oddatáar Kristján Erlingsson segir að fiskur til vinnslu verði að mestu keyptur af fiskmörkuðum og af bátum á Flateyri. Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segist ánægður með að menn leiti nýrra tækifæra til að viðhalda atvinnulífinu í byggðarlaginu. Hann segir að Ísafjarðarbær veiti fyrirtækinu stuðning ef til þess kæmi.



Kristján Erlingsson forstjóri Oddatáar segist einungis vera með eigið fjármagn í fyrirtækinu. Hann er 45 ára og fæddur og uppalinn á Flateyri. Hann var fjármálastjóri hjá fiskvinnslufyrirtækinu Hjálmi árin 1991- 1993 og framkvæmdastjóri hjá kúfiskvinnslunni, Vestfirskum Skelfiski árin 1993- 1996. Hann hefur verið búsettur í Úganda frá 1997 og á í dag eitt stærsta flugfragtfyrirtæki, Icemark Africa limited Í Úganda sem er jafnramt stærsti útflytjandi á fersku grænmeti til Evrópu. Búist er við að Oddatá taki við eignum Kambs í byrjun september og full fiskvinnsla hefjist um það leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×