Erlent

Hlakkar til að mæta Attenborough

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra er óhræddur við herferð breskra stjórnvalda gegn hvalveiðum Íslendinga, en verndarar hennar eru Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og sjónvarpsmaðurinn David Attenborough. Hann óttast aftur á móti að aðgerðir Bretanna muni ganga af Alþjóðahvalveiðiráðinu dauðu.

Greint hefur verið frá því að breska umhverfisráðuneytið hyggist efna til herferðar síðar í mánuðinum sem miðar meðal annars að því að fá ríki til að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið og styðja þau ríki sem þar eru fyrir og berjast gegn hvalveiðum.

Verndarar þessarar herferðar eru þeir Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og Sir David Attenborough, en hann nýtur hvarvetna virðingar fyrir nátturlífsþætti sína. Þetta virðist ekki valda Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra teljandi hugarangri heldur kveðst hann hlakka til að eiga í efnislegum viðræðum við mann á borð Attenborough.

Einar segir stuðning Blair við herferðina ekki koma á óvart enda hafi umhverfisráðherrann úr ráðuneyti hans þegar komið formlegum mótmælum á framfæri við sendiherra Íslands. Einar telur meiri ástæðu til að hafa áhyggjur af því að herferð Bretanna muni koma illa við Alþjóðahvalveiðiráðið. Ráðið sé að færast meira og meira út á jaðarinn og æ færri taki mark á því. Útspil Bretanna nú sé síst til að auka trúverðugleika þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×