Innlent

Bankarnir geta boðið miklu betri kjör

Gjaldtaka í íslenska bankakerfinu er með því hæsta sem

gerist, segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. Hann segir hlálegt að heyra bankamenn vísa í meingallaða könnun sem sýni að hér séu heimsins lægstu þjónustugjöld. Jóhannes krefst þess að bankarnir bjóði fólki betri kjör.

Heit umræða var á þingi í vikunni um okur bankanna. Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður Samfylkingar sagði að rannsaka þyrfti samráð bankanna. Guðmundur Ólafsson lektor sagði í fréttum okkar í gær að bankana munaði ekkert um að bæta vaxtakjör. Hann segir jafnframt að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi brugðist almenningi.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir hlálegt að talsmenn bankanna vísi í meingallaða könnun sem þeir fengu fyrirtæki til að gera fyrir sig fyrir nokkrum árum þar sem "við eigum að vera með heimsins lægstu þjónustugjöld."

Ýmsar aðrar skýrslur hafa sýnt þveröfuga niðurstöðu - að gjaldtaka í íslenska bankakerfinu sé með því hæsta sem gerist, segir Jóhannes. Og miðað við hagnað bankanna eigi þeir að geta boðið fólki miklu betri kjör. Vaxtastigið haldist vissulega í hendur við stýrivexti Seðlabankans, en... "stýrivextir Seðlabankans segja nákvæmlega ekki neitt um upphæð þeirra þjónustugjalda sem bankarnir eru að taka og það er vandamálið, það er vaxtamunurinn og þjónustugjöldin."

Jóhannes segir að minnka þurfi vaxtamuninn - frá báðum endum, það er að segja hækka innlánsvexti og lækka vexti á lán. "Ég myndi telja að það væri mjög sanngjörn krafa."

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×