Innlent

Meirihluti í Reykjavík suður styður flugvöll í Vatnsmýri

Meirihluti íbúa Reykjavíkurkjördæmis suður, eða 52 prósent, vill hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri, samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Stöð tvö. Kjósendur Samfylkingarinnar og íbúar vesturborgarinnar er þeir sem helst vilja flugvöllinn burt en kjósendur Sjálfstæðisflokks og íbúar austurborgarinnar eru þeir sem helst vilja hafa hann áfram.

Reykjavíkurflugvöllur er í Reykjavíkurkjördæmi suður en 800 manns voru spurðir hvort þeir teldu að flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýri eða flytjast annað. Af þeim 500 sem lýstu afstöðu sinni sögðust 52 prósent vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri en 48 prósent að flytja ætti hann annað. Nokkur munur kom fram á afstöðu eftir búsetu. Þannig sögðust 60 prósent íbúa í vestanverðri borginni, í póstnúmerum 101 til 108, vilja flytja flugvöllinn, meðan 60 prósent íbúar austurborgarinnar, í póstnúmerum 109 til 113, sögðust vilja hafa hann áfram í Vatnsmýri. Nokkur munur var einnig á afstöðu manna eftir því hvaða flokk þeir sögðust styðja. Þannig sögðust 65 prósent kjósenda Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður vilja flytja flugvöllinn, kjósendur Vinstri grænna í kjördæminu skiptust til helminga í afstöðu sinni meðan 60 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks sögðust vilja hafa völlinn áfram í Vatnsmýri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×