Innlent

Fiskimjölsverksmiðju við Krossanes lokað

Aldrei framar munu menn finna peningalykt á Akureyri. Ísfélag Vestmannaeyja hefur ákveðið að loka fiskimjölsverksmiðjunni á Krossanesi og eru viðbrögð bæjarbúa ekki öll á sama veg.

Framkvæmdastjóri félagsins segir sífellt minna hráefnis til loðnubræðslu og hafi bræðsludagarnir í Krossanesi í fyrra farið undir 30. Þá hafi aðeins verið brædd 14.000 tonn af loðnu og því sé ekki annað að gera en segja starfsmönnunum upp og leggja verksmiðjuna niður.

Guðmundur Pétursson hefur allt sitt líf sem nágranni verksmiðjunnar vanist því að hafa peningalyktina í nösunum og þótt fjárfest hafi verið í öflugum mengunarbúnaði hefur lyktin aldrei horfið alveg. Það kemur nokkuð á óvart að hann segist munu sakna lyktarinnar.

Frægt varð þegar eigendur verksmiðjunnar gáfu fyrir nokkrum árum öllum nágrönnum konfektkassa. Þá hafði staðið svo mikill styr um bræðslulyktina að íbúar í Holtahverfi sögðust eiga í vandræðum með að selja eignir sínar.

Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvað gert verður við verksmiðjuna en starfsmenn segja hana hana aldrei hafa verið betri. Væntanlega verður hluti af tækjabúnaðinum notaður til að endurbóta við bræðslur á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×