Erlent

7 bréfasprengjur á Bretlandseyjum

Breska lögreglan greindi frá því í dag að sjö bréfasprengjur hafi verið sendar á Bretlandseyjum undanfarnar þrjár vikur. Ein slík sprakk í Wales í dag og særði þrjá en það er fjórða sprengjan sem springur á fimm dögum.

Á blaðamannafundi Lundúnalögreglunnar í dag kom fram að sprengjurnar hefðu verið hlaðnar sprengiefni úr flugeldum og líkast til aðeins ætlaðar til að hræða fólk en ekki myrða. Lögregla staðfesti að sjö sprengjur hefðu verið sendar í pósti á Bretlandseyjum síðustu þrjár vikur - þar af hefðu fjórar þeirra sprungið síðustu fimm daga. Ein í Kent á laugardaginn, önnur í Lundúnum í fyrradag, sú þriðja í Wokingham í Berkshire í gær og fjórða í Swansea í Suður-Wales í dag. Tíu hafa særst en enginn týnt lífi. Enginn hefur lýst sig ábyrgan fyrir sendingunum.

Síðustu þrjár sprengjurnar hafa borist á skrifstofur sem allar tengjast bílaumferð. Fyrst var það fyrirtæki sem framleiðir hraðamyndavélar, þá innheimtufyrirtæki og loks ökutækjaskrá. Telja því breskir miðlar mögulegt að argir ökumenn hafi tekið höndum saman í hættulegri herferð gegn innheimtumönnum.

Það sem eyðileggur þá kenningu er að fyrstu fjórar sprengjurnar virðast ekki hafa beinst gegn slíkum rekstri. Fyrstu þrjár bárust efnarannsóknarstofum sem hafa meðal annars starfað fyrir lögregluna að rannsóknum mála. Sú fjórða barst á heimili manns í Kent sem kann enga skýringu á sendingunni til sín.

Breska lögreglan leggur áherslu á að ekki sé vitað hvort öll málin tengist og brýnir fyrir starfsmönnum fyrirtækja að meðhöndla póstsendingar með gát næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×