Erlent

Apple og Apple semja

Apple-tölvurisinn og Apple, útgáfufélag Bítlanna, hafa grafið stríðsöxina og bundið enda á þriggja áratuga lagadeilur um rétt til nafns og vörumerkis. Þetta gæti þýtt að Bítlalög verði í boði hjá iTunes og öðrum tónlistarveitum á netinu í fyrsta sinn.

Apple útgáfufyrirtækið stofnuðu Bítlarnir í janúar árið 1968 og er í eigu eftirlifandi Bítla og ættingja þeirra sem horfnir eru. Helsta verk þess er að halda utan um útgefið efni hljómsveitarinnar. Tölvufyrirtækið Apple var stofnað 1976. Tveimur árum síðar var það kært fyrir brot á lögum um vörumerki. Samkomulag tókst árið 1991 en tólf árum síðar var kært á ný þegar tölvurisinn opnaði fyrir iTunes tónlistarveituna á vefnum. Deilt var hart í fyrra en nú hefur samkomulag tekist. Samkvæmt því eignast Apple tölvufyrirtækið öll vörumerki en Apple útgáfufyrirtækið fær að nota þau.

Paul Williamson, fréttaritstjóri blaðsins Music Week, segir samkomulagið binda enda á baráttu fyrirtækjanna og eyði því sem hafi hingað til komið í veg fyrir að verk Bítlanna verði fáanleg á vefnum, sér í lagi á iTunes tónlistarveitu Apple tölvurisans, sem hafi 80% markaðshlutdeild og leiðandi á sínu sviði. Williamson segir ómöglegt að spá fyrir um hvað fáist fyrir lög Bítlanna á netinu ef eftirspurnin verði mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×