Erlent

Reyndu að fella internetið

MYND/Valgarður
Óþekktir tölvuþrjótar reyndu í gær að ráða niðurlögum þeirra 13 tölva sem sjá um að stjórna stórum hluta umferðar á internetinu. Árásin stóð yfir í rúmar tólf klukkustundir og virtist koma frá Suður-Kóreu. Milljónir tölva um allan heim, sem sýktar voru með vírusum sem gerðu tölvuþrjótum kleyft að ná stjórn á þeim, voru notaðar í árásinni.

Árásin var kröftug en tölvurnar 13 stóðu hana af sér. Ekki var ljóst af hvaða tilefni árásin var gerð þar sem engin boð komu um lausnargjald. Hugsanlegt er að hún hafi verið gerð einfaldlega til þess að sýna mátt tölvuþrjótanna. Árásin beindist meðal annars að tölvum sem eru í umsjá varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna.

Þetta er alvarlegasta árásin til þess að fella internetið síðan samskonar árás var gerð á sömu tölvurnar 13 árið 2002. Árásin snerist um að senda nógu mikið af tölvuskeytum og truflunarboðum á tölvurnar 13 í von um að þær myndu hætta að virka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×