Körfubolti

Howard kominn aftur til Dallas

Juwan Howard er kominn á kunnuglegar slóðir
Juwan Howard er kominn á kunnuglegar slóðir NordicPhotos/GettyImages
NBA lið Dallas Mavericks fékk góðan liðstyrk í nótt þegar liðið gekk frá samningi við framherjann reynda Juwan Howard sem keyptur var út úr samningi sínum hjá Minnesota á dögunum.

Howard er margreyndur leikmaður og spilað m.a. fyrir Dallas á árunum 2001-02. Síðustu þrjú ár lék hann með Houston þar sem hann skoraði að meðaltali um 10 stig í leik.

Cleveland náði loksins samningum við Serbann Sasha Pavlovic og hefur hann undirritað þriggja ára samning við félagið. Hann er reyndar staddur í Serbíu og nær tæplega að spila fyrsta leikinn með liðinu annað kvöld. Samningaviðræður höfðu gengið illa og var himinn og haf milli umboðsmanna leikmannsins og forráðamanna Cleveland lengst af.

LeBron James lýsti því yfir í viðtali við staðarblað í Cleveland að hann hefði miklar áhyggjur af því að Cleveland liðið hefði ekki náð að styrkja sig eins og flestir keppinautanna í Austurdeildinni í sumar.

Hann benti auk þess á það hve illa gengi að semja við Pavlovic og Brasilíumanninn Anderson Varejao og viðurkenndi að Cleveland væri í raun með lakara lið nú en í fyrra.

Varejao hefur enn ekki samið við Cleveland og ganga viðræður illa ef marka má fréttir. Það er alvarlegt mál fyrir Cleveland, sem treystir mikið á baráttugleði Brasilíumannsins undir körfunni.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×