Erlent

Unglingur kveikti elda

Guðjón Helgason skrifar

Unglingsstrákur hefur játað að hafa kveikt elda í skóglendi Suður-Kaliforníu í síðustu viku. Annar brennuvargur er eftirlýstur vegna elda sem loguðu suður af Los Angeles og kvart milljón bandaríkjadala boðin í verðlaun fyrir upplýsingar sem leiði til handtöku.

Unglingsstrákurinn hefur viðurkennt fyrir lögreglu að hann hafi verið að leika sér með eldspýtur þar sem eldar kviknuðu í Buckweed á Santa Clarita svæðinu um 50 kílómetrum norður af miðborg Los Angeles. Eldarnir voru einir af mörgum sem loguðu í Suður-Kaliforníu í síðustu viku - urðu minnst 12 að bana og kostuðu fjölmargar fjölskyldur heimili og persónulega muni.

Í fyrstu var talið að eldarnir í Buckweed hefðu kviknað út frá rafmagnslínu - en það ekki skýrt nánar. Strákurinn var hins vegar yfirheyrður skömmu eftir að eldarnir þar kviknað og hefur hann nú játað eldspýtufikt sitt.

Eldarnir sem hann kveikti loguðu á 15 þúsund hektara svæði og eyðilögðu 63 heimili. Strákurinn var sendur heim með foreldrum sínum eftir að hann játaði. Ekki hefur verið ákveðið hvort hann verði kærður.

Brennuvargar eru sagðir hafa verið að verki í Orange-sýslu í suður hluta Los Angeles þar sem eldar eyðilögðu 15 heimili. Yfirvöld þar hafa boðið jafnvirði fimmtán milljóna króna í verðlaun fyrir upplýsingar sem leiði til handtöku hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×