Innlent

Byggðastofnun vantar fjármuni

Byggðastofnun vantar meiri peninga til að geta sinnt hlutverki sínu, segir stjórnarformaður hennar. Opinber þjónusta vegur þungt þegar hagvöxtur landshluta er skoðaður.

Tekist er á um pólitískan vilja til að halda úti byggðastefnu. Hagfræðiprófessor sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að byggðastefna væri ekki til hér á landi en Byggðastofnun mótmælir slíkri staðhæfingu. Hún segir að störf Byggðastofnunar hafi sannarlega skilað árangri en segir að samt verði að auka framlögin til byggðamála, og ekki síst Byggðastofnunar.

Við höfum þegar greint frá neikvæðum hagvexti Vestfjarða og Norðurlands vestra í góðærinu sjálfu. En höfuðborgarsvæðið blómstrar og landshlutanir næst Reykjavík hafa það býsna gott. Á Norðurlandi eystra er ástandið tvískipt, býsna gott hér víða við Eyjafjörðinn en verra í Þingeyjarsýslum. Á Austurlandi hefur stóriðjan verið svæðinu innspýting en nú eiga slíkar lausnir undir högg að sækja.

Það vekur athygli að opinber þjónusta er stór hluti af hagvexti á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi samkvæmt skýrslunni. Því er ekki óeðlilegt að Vestfirðingar og fleiri kalli eftir flutningi á opinberum störfum. En sértækar byggðaaðgerðir hafa ekki verið í tísku undanfarið. Og tal um lægri skatta á landsbyggðinni hefur ekki átt upp á pallborðið þótt mörg dæmi séu um svoleiðis aðgerðir í nágrannalöndunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×