Erlent

Heimkvaðning hermanna undirbúin

Búist er við að Danir og Bretar tilkynni í dag um heimkvaðningu hermanna frá Írak. Áætlað er að Blair forsætisráðherra tilkynni að brottflutningur breskra hermanna hefjist innan örfárra vikna og að forsætisráðherra Dana útlisti áætlun sína á blaðamannafundi síðdegis.

Samkvæmt heimildum breskra miðla byggir áætlun Blairs á því að kalla heim 1.600 hermenn á næstu vikum en nú eru 7.100 breskir hermenn í Írak. Áætlað er að þeir sem eftir verði hafi allir bækistöðvar í Basra, annist eftirlit þar og gæti landamæranna að Íran. Búist er við því að um 3.000 hermenn hafi snúið heim fyrir lok ársins, versni ástandið í landinu ekki.

Þingmenn úr öllum flokkum í Bretlandi fagna ákvörðun Blairs en vilja að forsætisráðherrann ákveði hvenær allir hermenn verði komnir heim. Forsætisráðherrann segir það vandasamt og geta orðið vatn á myllu uppreisnarmanna sem skipuleggi aðgerðir sínar í kringum þá dagsetningu. Blair sagði fyrir nokkrum dögum að breski herinn hefði lokið við að þjálfa íraskar hersveitir í Basra og þess vegna gætu þær nú tekið við öryggisgæslu á svæðinu og breski herinn snúið heim.

Búist er við að forsætisráðherra Danmerkur, Anders Fogh Rasmussen, tillkynni í dag að Danir fari að dæmi Breta og kalla heim einhvern hluta hermanna sinna frá Írak. Búist er við yfirlýsingu frá forsætisráðherranum og Per Stig Möller, utanríkisráðherra, á blaðamannafundi síðar í dag. Danska fréttastofan Ritzau segir ekki hversu margir hermenn verði kvaddir heim, eða hvenær. Um 470 danskir hermenn eru í Írak, þar sem þeir eru hluti af breskri herdeild. Fimm danskir hermenn hafa fallið í landinu.

Um leið og heimkvaðning er undirbúin hjá Bretum og Dönum eru Bandaríkjamenn að fjölga í herliði sínum um rúmlega 21.000 hermenn. Andstæðingar Bush Bandaríkjaforseta koma til með að nota þessar tilkynningar í dag til að gagnrýna þá fjölgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×