Innlent

Meira af svartolíu í Wilson Muuga en talið var

Miklu meira virðist hafa verið eftir af svartolíu í flutningaskipinu Wilson Muuga, en talið var því vinnuflokkur hefur dælt um 20 tonnum upp úr lest skipsins á strandstað síðan í gær.

Vinnuflokkur Olíudreifingar á vegum Umhverfisstofnunar er nú um það bil búinn að fylla 25 þúsund lítra ker af sjóblandaðri olíu og áætla starfsmenn að um það bil 20 tonn af svartolíu séu í þeim. Það þýðir að minna hefur lekið úr skipinu eftir strandið en talið var og að ef til vill hafa ekki nema tíu til tuttugu tonn af svartolíu lekið út af þeim rösklega 70 tonnum sem voru í skipinu þegar það strandaði, að mati Umhverfisstofnunar.

Þá verður olíumettaður þangflekkurinn sem fannst í sjávartjörn skammt frá strandstað í fyrradag einnig verið fjarlægður með þyrlu en þar fannst dauður olíumengaður æðarfugl í gær.

Af æðarfuglunum sem fundust mengaðir í fjörunni í Garði og fluttir voru í Húsdýragarðinn til aðhlynningar í fyrradag er það að frétta að karlfuglinn drapst í fyrrinótt en kvenfuglinn er að hressast og verður hreinsaður í dag. Ekki hafa fundist fleiri olíumengaðir fuglar í fjörunni en þær gætu verið á sjónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×