Erlent

Brú hrundi í Kaliforníu

Guðjón Helgason skrifar

Hluti umferðarbrúar í Oakland í Kaliforníu hrundi í dag og mikill eldur kviknaði þegar eldsneytisflutningabíll skall á stólpa. Eldtungurnar náðu rúma 60 metra upp í loft þar sem mestur eldur logaði. Ökumaður flutningabílsins slasaist aðeins lítillega og var hann fluttur á sjúkrahús. Engan annan vegfaranda sakaði.

Brúin varð síðast fyrir skemmdum í jarðskjálfta árið 1989. Töluverðar skemmdir urðu á henni nú og búist við að einhvern tíma taki að gera við hana. Brúin tengir San Francisco við flóasvæðið í austri þar sem fjölmargir búa. Nærri hálf milljón bíla fer um brúnna á hverjum degi.

Ekki er vitað hvað olli slysinu og ekkert sem bendir til þess að ökumaðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis eða eiturlyfja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×