Innlent

Aðrennslisgöngum lokað aftur vegna mengunar

Aðrennslisgöng Kárahnjúka voru opnuð í gærkvöld eftir að þeim var lokað vegna slæmrar mengunar í síðustu viku. Loka þurfti göngunum aftur þar sem mengunin fór upp að viðmiðunarmörkum í gær. Leggja þurfti niður störf á tuttugu metra kafla í göngunum.



Vinnueftirlitið lokaði hluta aðrennslisganganna við Kárahnjúka síðastliðinn þriðjudag vegna heilsufarsvandamála sem upp komu í þar síðustu viku. Töluverð mengun var í þeim hluta ganganna sem eftirlitið lét loka vegna dísilvéla sem þar voru notaðar. Hátt í 10 starfsmenn veiktust þar af 7 alvarlega. Starfsmennirnir fengu meðal annars alvarleg asma einkenni og ertingu í öndunarfærum. Þeir eru nú langflestir á batavegi og geta hafið störf innan skamms.

Harald Alfreðsson aðstoðarstaðarverkfræðingur hjá Framkvæmdareftirliti Landsvirkjunar segir loftið í göngunum hafa verið að versna síðustu vikur en reynt hafi verið að bæta úr því. Öflugum loftblásurum hafi verið komið fyrir í göngunum sem eigi að hreinsa loftið verulega.



Eftir að göngin voru opnuð í gærkvöld fór mengunin aftur upp að viðmiðunarmörkum og þurfti að leggja niður störf á 20 metra kafla. Gert er ráð fyrir að loftræstingu á þeim kafla ljúki í dag og störf geti hafist eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×