Viðskipti erlent

Olíuverð komið yfir 60 dali á tunnu

Við bensíndælu í Kína.
Við bensíndælu í Kína. Mynd/AFP

Heimsmarkaðsverð á hráolíu fór í rúma 60 bandaríkjadali á tunnu í rafrænum viðskiptum í Asíu í dag. Helsta ástæðan er kuldakast í Bandaríkjunum sem kallað hefur á aukna olíu til húshitunar. Þá munar nokkru um harðnandi deilur Bandaríkjamanna og Írana vegna kjarnorkuáætlunar síðastnefndu þjóðarinnar og átök í Nígeríu en það hefur bitnað á olíuframleiðslu landsins.

Hráolíuverð hefur daðrað við 60 dala markið síðustu vikuna eftir að kólna tók í Bandaríkjunum. Verðið fór hins vegar niður fyrir 50 dalina skömmu eftir áramótin vegna hlýinda vestanhafs en það dró úr eftirspurninni.

Veðurfræðingar spá því að veðrið haldist óbreytt í Bandaríkjunum í um viku til viðbótar og telja greinendur að hráolíuverðið haldist hátt á sama tíma.

Þá harðnaði í deilu Bandaríkjamanna og Írana eftir að Ayatollah Khamenei, æðsti klerkur Írana, hótaði því að svara í sömu mynt ef Bandaríkjamenn gerðu innrás í landið til að stöðva kjarnorkutilraunir Írana.

Hráolíuverðið hækkaði vegna þessa um hálfan dal og fór í 60,21 dal á tunnu í rafrænum viðskiptum í Asíu. Verðið stóð í 59,71 dal á tunnu í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×